144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég var bara rétt í þessu, fyrir svona þremur korterum síðan, að tala við fyrrverandi forseta Sviss. Svisslendingar hafa náttúrlega lýðræðishefð þar sem landsmenn geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um ályktanir og lög sem samþykkt hafa verið á þinginu. Ég sagði að það væri möguleiki á Íslandi og að fjármálaráðherra væri byrjaður að tala fyrir því og einnig margir þingmenn. Ég spurði hana hvaða áhrif það mundi hafa. Ég sagði henni líka að það væri málþóf í þinginu. Hún hikaði ekki og sagði: Þeir þurfa bara að tala saman, þeir þurfa bara að leysa málin. — Og það er nákvæmlega það sem mun gerast.

Það sem er í gangi hérna og búið er að vera í gangi alla þessa viku og á að vera í gangi í dag er að menn rífast um dagskrána á meðan við eigum að vera að ræða um vinnumarkaðinn, við eigum að reyna að finna lausnir, við eigum að hafa kringumstæður til að geta verið með langtímastefnu í málum. (Forseti hringir.) Þetta er mögulegt. Um leið og þjóðin getur stoppað okkur hérna á þingi verðum við að ræða saman.