144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[10:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi framganga stjórnarmeirihlutans er stórhættuleg málinu því að með því að koma hér eins og fé rekið í rétt til að greiða atkvæði um tímalengd þingfundar fyrir okkur hin fara stjórnarþingmenn á mis við þá efnislegu umræðu sem fram fer í þingsal. Ég nefni sem dæmi um það að ég hélt hér ræðu í gærkvöldi og fjallaði um þá staðreynd að það er veruleg hætta á því ef tillaga meiri hlutans verður að veruleika að menn tefli í tvísýnu orðspori íslenskrar orku sem grænnar orku og hætta jafnvel á það að þær virkjanir sem reistar yrðu með þessum hætti þvert á lög og rétt yrðu afsláttarvirkjanir um alla tíð, það yrði aldrei hægt að selja orkuna úr þeim fullu verði.

Það vantar efnislega umræðu um þessa þætti og marga aðra þætti þessa máls og stjórnarmeirihlutinn tekur ekki þátt í þeirri umræðu. Hið eina sem virðist vera á dagskrá af hálfu meiri hlutans er (Forseti hringir.) að styðja ofstopamennina í meiri hluta atvinnuveganefndar í aðför þeirra að umhverfisráðherra og það er undarlegt að sjá framsóknarmennina bakka það endalaust upp.