144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[10:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst ætla ég að gera athugasemd við það að hæstv. forseti geri fundarhlé til að kalla saman stjórnarliða þegar meira en helmingur þingmanna er staddur í húsinu. Við erum að tala um forseta alls þingsins. Hvaða skilaboð eru gefin með því? Að það sé hægt að gera fundarhlé, ekki vegna þess að það vanti fólk í hús heldur vantar „rétta fólkið“ fyrir hæstv. forseta. Þetta finnst mér gagnrýnisvert.

Hv. formaður atvinnuveganefndar, ég ætla í allri fullri vinsemd í tíunda skiptið hér í þinginu að koma með tillögu. Ég er með tillögu um að þingið samþykki tillögu ríkisstjórnarinnar og hæstv. umhverfisráðherra um Hvammsvirkjun. Það er mín tillaga. Er það mikill dónaskapur og ofbeldi gegn stjórnarmeirihluta? Það er illa farið með. Tillagan var samþykkt af báðum þingflokkum. Við erum eingöngu að biðja um að (Forseti hringir.) bíða eftir verkefnisstjórn með breytingartillögu frá hv. atvinnuveganefnd. (Forseti hringir.) Fyrir liggur tillaga sem er full sátt um en enginn sáttarvilji (Forseti hringir.) af hálfu stjórnarliðanna.