144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[11:02]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni sem hér talaði. Það að setja málið í einhvern farveg eða skjóta því á frest þýðir nefnilega ekki endilega að við náum sameiginlegri niðurstöðu, en að lágmarki getum við þá beðið þann stutta tíma sem eftir er þar til verkefnisstjórnin skilar. Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson reyndi að færa fyrir því rök í gærkvöldi hvers vegna þyrfti að bæta svona miklu við í nýtingarflokk. Þau voru afar slöpp, virðulegi forseti, svo ekki sé meira sagt. Hann gat ekki svarað því hvort það sem nú þegar er í nýtingarflokki dygði ekki fyrir þeim hugmyndum sem hann hafði uppi. Þetta voru auðvitað vangaveltur um eitt og annað, en það er ekkert í hendi. Meiri hlutinn hefur ekki fært rök fyrir þessari framkomu sinni hér (Gripið fram í.) en honum ber að gera það í stað þess að fara fram með því ofbeldi sem hér er beitt.