144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[11:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og Valgerður Bjarnadóttir hafa sett puttann á púlsinn í þessu máli. Tillögu hæstv. umhverfisráðherra var upphaflega dreift þann 9. október og hún tekin á dagskrá 14. október. Þeirri umræðu lauk og málið var sent, vissulega í ágreiningi, til atvinnuveganefndar þann 15. október af því að við höfum efnislega mjög ólíkar skoðanir á Hvammsvirkjun. Það kom klárlega fram í fyrri umr. um tillögu hæstv. umhverfisráðherra en það var enginn vafi á því að hæstv. umhverfisráðherra hafði fullt umboð samkvæmt ramma laganna til að leggja til þessa tillögu í samræmi við röðun verkefnisstjórnar. Það var enginn efi um það. Það sem hefur gerst hér síðan er að hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar taka sér það vald að telja að þeir geti stigið inn í lögbundið ferli þar sem verkefnisstjórn 3. áfanga í rammaáætlun er að vinna að því að raða 26 kostum (Forseti hringir.) og mun skila þeim niðurstöðum 2016. Um það snýst deilan. Efnislega getum við haft ólíkar skoðanir, en þetta verður að laga því að Alþingi getur ekki farið fram með svona formleysi.