144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[11:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér fundust það dapurlegar og jafnframt mjög alvarlegar fregnir sem voru bornar í þennan ræðustól áðan af lélegri mætingu á nefndafundi í morgun. Svo kemur sú uppákoma að fresta þurfti atkvæðagreiðslu um dagskrártillögu vegna þess að ekki var réttur meiri hluti í húsinu. Mér finnst alveg gríðarlega alvarlegt mál að forseti okkar allra á Alþingi sé þannig í raun að hygla þeim sem ekki mæta á réttum tíma í vinnuna og fá aukinn tímafrest til að greiða atkvæði um tillögu sem þeir sitja svo ekki einu sinni í þingsal nema kannski tveir eða þrír til að ræða (Forseti hringir.) en vilja engu að síður hafa á dagskrá. Þetta gengur ekki.