144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:23]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að gera að umræðuefni mínu veginn um Teigsskóg. Eins og margir muna eflaust eftir hefur verið mikill styr um það hvar og hvernig eigi að leggja nýjan veg um skóginn sem gæti orðið öruggur láglendisvegur þannig að við náum að tengja suðurfirði Vestfjarða betur við þennan hluta landsins.

Þetta fór í ákveðið ferli í vetur með stuðningi ákveðinna ráðherra er fylgdu þá þessum málaflokkum. Nú heyrir maður fréttir af því að málið sé inni í Skipulagsstofnun og hafi tekið þar mun lengri tíma en talað var um í fyrstu og beðið er eftir svörum þaðan um afstöðu Skipulagsstofnunar til þessara mála.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur öll, sérstaklega íbúa sunnanverðra Vestfjarða, að fá að vita hvaða niðurstaða verður í þessu mikilvæga máli fyrir byggðarlagið þar og þá sem þar búa. Þetta er mjög mikilvægt, þarna er mikil uppbygging í gangi, þarna eru margir einstaklingar og fjölskyldur sem þurfa að keyra suður til að sækja ýmsa þjónustu, m.a. ýmsa læknisþjónustu. Þarna eru verslanir sem þurfa á aðföngum að halda til að geta boðið upp á þá þjónustu sem veita skal og það verður að fara að fá einhverja vissu í þetta mál og geta lagt þarna þennan veg.

Ég ákvað að koma hérna upp til að minna á þetta mál. Það er langt síðan við ræddum það síðast. Við verðum virkilega að fara að ýta á að fá niðurstöðu í málið þessu samfélagi til heilla og til að stuðla enn frekar að uppbyggingu á svæðinu.