144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að eiga orðastað við hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um álit hennar sem varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem hv. þingmaður er með réttu, og sem hv. þingmanns á því sem er að gerast í þinginu. Ég fór yfir ræður hér sem hafa verið fluttar af hv. þingmanni og hefur ekki neitt komið fram um hver viðhorf þingmannsins eru í neinum ræðum síðan hún tók sæti sem óbreyttur þingmaður eftir að hafa verið hæstv. ráðherra um stund. Því finnst mér mjög mikilvægt að vita hver viðhorf þingmannsins eru til dæmis gagnvart því sem er að gerast í þinginu varðandi rammaáætlun, því að ég veit að þegar hv. þingmaður var í borgarstjórn var hún mikill talsmaður samvinnustjórnmála og þess að reynt væri að finna sameiginlegar lausnir á erfiðum vandamálum í stað þeirra átakastjórnmála sem hér eru þessa dagana.

Þá langar mig jafnframt að vita hver viðhorf hv. þingmannsins eru gagnvart þeim fjöldamörgu álitamálum sem eru í gangi í ríkisstjórninni, hver afstaða hv. þingmannsins er til dæmis gagnvart þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru og hafnar eru í menntakerfinu. Ég tók eftir því að hv. þingmaður var deildarsérfræðingur í menntamálaráðuneytinu. Það væri mjög gagnlegt að heyra meira í þingmönnum stjórnarinnar um þau mál sem eru til umræðu á Alþingi. Þess vegna langaði mig að heyra sérstaklega í varaformanni Sjálfstæðisflokksins um þau álitamál sem hér eru til umræðu.