144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það má með sanni segja að ekki ári vel á Alþingi Íslendinga þessa dagana. Það árar heldur ekki vel í kjaraviðræðum launþega og Samtaka atvinnulífsins. Við okkur blasir að fram undan eru meiri kjaradeilur en við höfum horfst í augu við frá því um 1990. Við horfum til þess að innan tíðar verður hér allsherjarverkfall í kringum 60–70 þúsund vinnubærra manna og við sjáumst ekki fyrir í þeim verkefnum frekar en þeim sem eru á þingi.

Það hlýtur að vera komið að því, virðulegur forseti, að við sem hér störfum og þeir sem eiga í kjaradeilum eða vinna við kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði sem og hinum almenna setjumst niður og reynum, og ég ítreka það, að mynda að nýju traust, traust til þess að geta talað saman, traust til þess að geta leyst úr þeim verkefnum sem við okkur blasa. Það er algjörlega ljóst í mínum huga að til þess að okkur takist að halda áfram með verkin hér og til þess að okkur takist að leysa þær kjaradeilur sem eru á almennum vinnumarkaði þá þarf að byggja upp traust. Það ríkir ekkert traust. Ef ég kynni og vissi lausnina þá væri ég löngu komin með hana fram. En orð verða alltaf til alls fyrst. Ég held að (Forseti hringir.) grundvallaratriði okkar sé að gefa orðinu traust (Forseti hringir.) aftur það vægi sem það á skilið og reyna að mynda það á milli okkar hér sem og annars staðar.