144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

störf þingsins.

[11:41]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér vinnulagið, störfin og dagskrána og halda áfram að ræða lífskjörin.

Þrátt fyrir að dagskráin gangi hægt og störfin á Alþingi virki þunglamaleg undir þeim kringumstæðum þá skulum við ekki gleyma því að í ágreiningi býr viss kraftur sem má nýta til góðs. Það á jafnframt við um það vandasama verkefni sem aðilar vinnumarkaðarins fást við og ég efast ekki eitt andartak um að hæstv. ríkisstjórn leggi sín lóð á vogarskálar samkomulagsins.

Áætlun um nýtingu auðlinda verður að byggja á faglegri stefnumótun og langtímasýn um bætt lífskjör. Hér hafa, virðulegi forseti, inni á milli verið afar gagnlegar umræður, m.a. um fyrirkomulag á stjórn fiskveiða og um húsnæðismarkaðinn og það er afar brýnt að þau mál komist á dagskrá. Þrátt fyrir allt eru aðstæður fyrir hendi til að bæta lífskjörin enn frekar. Það er vegna þess að núverandi hæstv. ríkisstjórn hóf þegar sókn til að létta undir með heimilunum. Skuldastaða heimilanna hefur batnað umtalsvert og mun hraðar en í flestum ríkjum sem við berum okkur saman við. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa stuðlað að stöðugleika og auknum kaupmætti. — Já, kaupmáttur hefur aukist hér um 8% frá 2013 og aldrei verið meiri. Þá geta heimilin haldið áfram að greiða niður lán sín eða sparað til fyrstu kaupa með skattfrjálsum séreignarsparnaði í hverjum mánuði. Boðuð er áætlun um að draga úr vægi verðtryggingar með það í huga að afnema hana af húsnæðislánum. Það er hluti af því framtíðarfyrirkomulagi sem er nauðsynlegt til að bæta lánaumhverfi húsnæðislána og skapa hér kringumstæður til vaxtalækkana til að auðvelda meðal annars ungu fólki að eignast húsnæði.