144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[11:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er búin að biðja forseta oft um að hlutast til um að þetta mál leysist vegna þess að það er hægt að leysa það, ég held að hann viti það alveg jafn vel og ég, og ágreiningurinn stendur um að meiri hluti atvinnuveganefndar bætti fjórum nýtingarkostum við tillögu hæstv. umhverfisráðherra. Við getum haft mismunandi skoðanir á því hvort eigi að fara í Hvammsvirkjun en á hinn bóginn hafði sá virkjunarkostur farið í gegnum allt það formlega ferli sem á að gera samkvæmt rammaáætlun. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að greiða atkvæði um þá tillögu.

Hinir kostirnir fjórir eru í andstöðu við það sem Alþingi Íslendinga var búið að ákveða að ætti að eiga sér stað áður en slíkir kostir yrðu bornir undir atkvæði þingsins. Það þarf að laga.