144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Jafnvel þótt við tökum út af borðinu það sem er mikilvægast hér af öllu, það hvernig við ætlum að haga þinghaldi til framtíðar, hvernig hægt sé að laga þau vandamál sem gera það að verkum að við erum hér dögum saman og að því er virðist vikum saman, langar mig að varpa fram spurningu til hins háa Alþingis, mjög einfaldri spurningu sem ég tel lögmæta jafnvel þótt við gerum ráð fyrir því að núverandi fyrirkomulag sé fullkomlega nægt til að halda hér almennilegum þingstörfum. Spurningin er þessi: Þarf málið meðferð nefndar? Ég tel svo vera. Ýmis sjónarmið hafa komið fram í umræðunni frá hv. meirihlutaþingmönnum og hv. minnihlutaþingmönnum sem kalla á samtal í nefnd, sem kalla á það að menn vinni saman í nefnd. Þetta er síðari umr. og það er ekkert annað ferli til að setja þetta í en nefnd eða að fresta málinu og því eigum við að fresta málinu og setja það strax í nefnd.