144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Undir liðnum um störf þingsins áðan komu formenn þingflokka Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og töluðu jákvætt inn í daginn um að við ættum að reyna að finna einhverja lendingu í þessu máli. Ég tek undir það og að við notum þetta tækifæri til þess að gera það. Tækifærið er til staðar. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins talaði um traust og vinnubrögð. Við getum haldið áfram að tala fallega, en það væri auðvitað mjög gott ef við létum verkin tala. Það er alltaf best. Við getum talað fallega hvert við annað og verið ekki að skemmta okkur með einhverri fyndni á kostnað annarra, ef það er viðkvæmt, en reynum þá að láta verkin tala og sýnum að við meinum eitthvað með því ef við erum að tala í þá átt að við ætlum að reyna að leysa málin en að það sé ekki bara eitthvert kurteisishjal.