144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:06]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þá er komin fram tillaga frá hv. þm. Kristjáni L. Möller um að boða til fundar í atvinnuveganefnd þar sem hægt væri að boða verkefnisstjórn og ræða hvort ekki væri hægt að flýta þeirri vinnu og sjá hvernig hægt væri að finna einhvern sáttaflöt á því. Jón Gunnarsson gæti boðað til fundar hið snarasta, talað við verkefnisstjórn, fengið hana á fund í dag og byrjað að finna lausn á þessu máli. Hann hefur sagt: Hvar eru lausnirnar, hvar eru lausnirnar?

Þarna er kallað eftir vettvangi atvinnuveganefndar með fagaðilunum um að finna lausn þannig að ég sé ekki hvernig hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, geti ekki orðið við því. Ef hann verður ekki við því geta þrír þingmenn, sem sagt minni hlutinn í atvinnuveganefnd, þvingað fram fund innan þriggja daga sem verður að sjálfsögðu gert og þá mun það líta illa út ef menn er ekki tilbúnir að setjast á þá sáttastóla og reyna að finna lausnir saman. Nú væri lag að forsetinn tæki þetta mál á dagskrá og leyfði mönnum að setjast á rökstóla og finna lausn.