144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér hefur komið beiðni frá ansi mörgum þingmönnum og tilboð um margs konar leiðir til lausna á þessu máli sem ég held að sé orðið hlaðborð fyrir hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar til að velja hreinlega hvaða leið þeir vilja fara.

Ég tek undir með formönnum þingflokka stjórnarmeirihlutans, auðvitað eigum við að reyna að finna farveg. Við höfum talað mjög lengi um að afskrifa ekki samtalið þrátt fyrir mikinn ágreining. Það er mjög mikilvægt að við getum talað saman og reynt að finna lausn. Nú er komin formleg beiðni um fund með verkefnisstjórn sem er mjög gott og ég vona að formaður atvinnuveganefndar verði við henni.

Eins eru þessar tillögur til þess fallnar, nú þegar líður að þinglokum, að fara með önnur mál í ferli. Eins og kom fram fyrr hjá þeim sem situr nú á forsetastóli, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þarf að leysa mörg önnur mál áður en Alþingi lýkur.