144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ræði hér ásamt öðrum enn eina ferðina fundarstjórn forseta. Það höfum við gert dögum saman. Yfir okkur vofa verkföll, og hafa gert í sjö vikur, víða í samfélaginu sem meðal annars hafa mjög neikvæð áhrif á heilbrigðiskerfið. Um miðja næstu viku eru hjúkrunarfræðingar að fara í verkfall.

Herra forseti. Við alþingismenn ættum kannski að líta upp úr eigin görnum, fá hingað, eins og ég hef margoft óskað eftir, hæstv. forsætisráðherra til að flytja okkur skýrslu um hvernig hann hyggst taka á þeirri stöðu sem upp er komin, sem er grafalvarleg fyrir íslenskt samfélag.

Hæstv. forsætisráðherra hefur vart sést hér í salnum. Í gær í mýflugumynd til að kenna okkur mannasiði, að eigin sögn. Ég er farin að hallast að því, herra forseti, að hæstv. forsætisráðherra sé kominn í verkfall.