144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú hafa nefndarmönnum í atvinnuveganefnd borist boð á nefndarfund í fyrramálið klukkan hálftíu þannig að í raun mundi ég telja fulla ástæðu til þess að fresta þessum fundi núna (SII: Já.) og að þetta mál yrði ekki tekið aftur á dagskrá fyrr en að loknum þeim fundi, eftir hvítasunnu og bænahald.

Ég vil enn og aftur nota tækifærið til að minna á að það sem við ræðum hér um, og er hlutverk allra hv. þingmanna, ekki síður hv. þingmanna meiri hluta en minni hluta, er að gæta að því að Alþingi fylgi lögum og reglum. Hv. þingmenn meiri hlutans hafa spurt hvaða álit séu fyrir því að þetta sé ekki í lagi, það sem við erum að gera. Ég nefni álit hæstv. umhverfisráðherra.

Þeir þingmenn sem hafa fylgst með fréttum morgunsins sáu að hæstv. umhverfisráðherra var á fundi Landsvirkjunar og ég ítreka að hún vildi ekki að rammaáætlun yrði hent fyrir (Forseti hringir.) borð, eins og mig minnir að hún hafi orðað það. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Hæstv. umhverfisráðherra sagði: Það verður að standa vörð um verkferlana í rammaáætlun. (Forseti hringir.) Og í tillögu hæstv. ráðherra segir að í þingsályktunartillögu um Hvammsvirkjun sé lagt til að virkjunarkostir (Forseti hringir.) við Hvammsvirkjun verði flokkaðir í nýtingarflokk áætlunar um vernd (Forseti hringir.) og orkunýtingu landsvæða samkvæmt ákvæðum laga nr. 48/2011. (Forseti hringir.) Þetta liggur allt (Forseti hringir.) fyrir, herra forseti.

(Forseti (SJS): Forseti biður ræðumenn að gæta að ræðutíma.)