144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég átti von á að það yrði komið hlé hér, þótt ekki væri nema vegna þess að boðað hefði verið til fundar í velferðarnefnd. Nefndir þingsins eru starfandi og eina nefndin sem virðist hafa verið fullskipuð í morgunsárið er velferðarnefnd þar sem verið er að fjalla um mjög viðkvæmt ágreiningsmál en menn hafa samt leyft því að ganga áfram. Kannski er það vegna þess að formaður hv. velferðarnefndar er úr minni hlutanum, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Þar leyfum við málum að ganga fram.

Ég fagna því ef búið er að boða fund í hv. atvinnuveganefnd í fyrramálið. Það ætti auðvitað að þýða að við eigum að stoppa þessa umræðu núna og ljúka umræðunni um menntamálin sem er á dagskrá hér síðar í dag. Ef ekki næst að fá fulltrúa ríkisstjórnarinnar til að taka þátt í umræðu um ástandið á vinnumarkaðnum og kjaradeilurnar og afleiðingar þeirra deilna fyrir sjúklinga fyrst og fremst þá ráðum við ekki við það, (Forseti hringir.) en það er engin ástæða til að halda þessari umræðu áfram og klára (Forseti hringir.) seinni ræðurnar í síðari umr. um þingsályktunartillöguna fyrr en við heyrum niðurstöðuna (Forseti hringir.) frá atvinnuveganefnd.