144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að nefna það sem hv. þm. Páll Jóhann Pálsson nefndi hérna áðan, að meiri hlutinn segðist vilja einhverja sátt. Meiri hlutinn vill þá væntanlega setjast niður og ræða þá sátt. Hv. þingmaður segir að minni hlutinn vilji það bersýnilega líka en hins vegar eigi að halda þessum fundi áfram og halda áfram með málið sem við deilum um, sem er rammaáætlun. Það er mótsögn í þessu. Ef það á að vera eitthvert samtal þá þurfum við að eiga það samtal. Það er ástæða fyrir því að nefndafundir mega ekki vera á sama tíma og þingfundir. Það er vegna þess að fólk getur bara verið á einum stað á hverjum tíma. Við eigum að vera hér inni að ræða þetta mál og þurfum að vera hérna til að ræða þetta mál. Auðvitað er ekki stokkfullur salur hér, en það verður að gera hlé á þessum fundi og fresta umræðu um málið ef það á að ræða það í nefnd.