144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:43]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta allt of fallegur dagur til þess að fara í eitthvert persónulegt skítkast þó að ég sé ekki sammála þingmönnum; ég ætla ekki að taka þátt í því. Hvort ég glotti eða gretti mig eða hlæ eða hvað, ég hefði haldið að eitt lítið bros, þótt ekki væri nema það, væri skilaboð um jákvæðni, ég hélt það. En ef menn kjósa að túlka það sem hæðni þá er það þeirra mál, það ber kannski vott um hvernig liggur á viðkomandi.

Ég veit ekki betur en að ég hafi fagnað því hér áðan að kominn væri sáttahugur og árangurinn af þessari umræðu væri að skila sér, hvort sem hún væri undir liðnum fundarstjórn forseta eða hvað. Ég ítreka að ég fagna því en ég vara við bráðlæti. Við megum ekki hlaupa á okkur. Við skulum ekki hlaupa á okkur þó að sáttatónn heyrist loks á báða bóga. Við skulum ekki vera of fljót á okkur, þá getum við skemmt fyrir okkur.