144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

breyting á starfsáætlun.

[14:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er alveg greinilegt hvaða skilning forseti hefur á þessum boðaða fundi atvinnuveganefndar. Það er alveg greinilegt að forseti hefur enga trú á því að sá fundur muni skila nokkru, hann verði bara haldinn þarna á einhverjum laugardegi en við ætlum að halda okkar striki með sama hnút hér. Hefur forseti ekki áhuga á því að leysa hnútinn? Sér hann ekki kosti þess að leysa þennan hnút? Eða er hann þátttakandi í því að búa til eitthvert leikrit og einhver leiktjöld hér úti á nefndasviði á morgun?

Ég spyr: Eiga fulltrúar minni hlutans að eyða tíma sínum í að mæta á þennan fund? Um hvað snýst þetta, virðulegur forseti? Þetta eru skilaboð til þingsins. Þetta eru skilaboð út í samfélagið að forseti hefur enga trú á því að það sé nokkuð að marka þetta fundarboð og að þetta sé sýndarmennska. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)