144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[14:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hvar er nú hæstv. forseti Einar K. Guðfinnsson? Það var við hann sem ég vildi eiga orðastað. Mér satt að segja ofbauð að hlusta á skilaboð hans áðan. Er það ekki hann sem á að standa vörð um sóma Alþingis? Og hvað veldur því að hinn hugumstóri Bolvíkingur hopar af hólmi og fer úr eldinum miðjum?

Ég vildi ræða við hann um þann veruleika sem hæstv. forseti sagðist lúta. Sá veruleiki blasir við öllum þingheimi. Það eru hér tveir þingmenn, hv. þm. Páll Jóhann Pálsson og hv. þm. Jón Gunnarsson, sem hafa tekið þetta þing í gíslingu og hafa núna líka tekið forseta Alþingis í skrúfstykki. Það er það sem ég ætla að mótmæla gagnvart hæstv. forseta Einari K. Guðfinnssyni.

Það er skylda hans að standa vörð um sóma þingsins. Ekki láta sig verða að einhvers konar reipi sem tveir þingmenn togast á um við þingheim í gegnum hann. Það er þinginu til vansæmdar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er við hæstv. forseta sem ég vil tala í dag.