144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[14:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Maður verður eiginlega miður sín hérna yfir því hvernig þetta ástand er orðið. Ég verð að segja að eitthvað brestur inni í manni þegar maður heyrir líka þungann og alvöruna sem er hérna á ferðinni. Maður vill eiginlega ekki vera hérna við þessar aðstæður. Ég held að það væri bara gott að við gengjum inn í þessa hvítasunnuhelgi, drægjum aðeins inn andann og kæmum með endurnýjað hugarfar aftur í vinnuna eftir helgi. Það liggur fyrir að starfsáætlunin er breytt og mér þykir að þar eigi að vera einhver mörk, að það sé ekki bara opið og búið að viðurkenna að starfsáætlun þingsins sé orðin dautt plagg. Við ætluðum að breyta vinnubrögðum á Alþingi svo það væri hægt að starfa hérna eftir starfsáætlun, en núna er þetta allt í upplausn. Ég held að þeir hv. þingmenn sem bera mikla ábyrgð á þessu máli ættu aðeins að horfa inn á við og hugsa: (Forseti hringir.) Er það ekki okkar að draga þá vitleysu í land sem hefur orðið upphafið að þeirri endaleysu sem hér hefur verið undanfarna daga og vikur?