144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[14:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér var verulega brugðið áðan. Það virtust vera að opnast gluggar til samkomulags fyrr í dag eða í morgun. Formenn þingflokka meiri hlutans töluðu á mjúkum nótum og svo var boðaður fundur í atvinnuveganefnd í fyrramálið. Ég gerði þá ráð fyrir að við sæjum á bak rammanum út úr umræðum á þessum degi og jafnvel bara að sú skynsamlega ákvörðun yrði tekin að láta það duga að klára sérstöku umræðuna hér á eftir. En orð forseta féllu að hluta til á annan veg.

Eldar loga allt í kringum ríkisstjórn Íslands. Ástandið á vinnumarkaði er alvarlegra en það hefur verið um áratugaskeið. Framhaldsskólakerfið í landinu logar að innan og framhaldsskólamenn og sveitarstjórnarmenn senda neyðarköll sem aldrei fyrr út af því sem hæstv. menntamálaráðherra ætlar á bak við tjöldin að reyna að böðlast áfram með í skólakerfinu.

Á sama tíma og starfsáætlun Alþingis springur í andlitið á forseta er beðið um gott veður fyrir væntanleg og ókomin stórmál inn í þingið. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Hvernig heldur forseti að þetta geti gengið nema meiri hlutinn fari að sýna einhvern vilja til að skapa (Forseti hringir.) andrúmsloft þannig að hægt sé að ljúka störfum þingsins með einhverjum brag, hvenær sem það verður?