144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[14:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er áhersla núverandi hæstv. ríkisstjórnar á þjóðmenningu sem veldur því að forustumenn meiri hlutans virðast upplifa sig eins og höfðingja á Sturlungaöld og valda ófriði hvar sem þeir koma, í hverju málinu á fætur öðru. Og þó að við höfum notað síðustu daga í að ræða eitt stórt, flókið mál er um leið verið að boða mörg önnur stór mál sem ætlast er til að þingið taki inn í fullkominni óvissu um framhald mála á þinginu.

Ég veit að virðulegur forseti er vel lesinn maður í Sturlungu og held því að nú væri skynsamlegt að reyna að fresta fundahöldum að lokinni þeirri sérstöku umræðu sem hér fer fram á eftir og efna til þeirra samtala sem virðulegur forseti hefur talað fyrir að muni eiga sér stað áður en þessi hjaðningavíg verða enn verri en við höfum séð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)