144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[14:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hæstv. forseti þingsins segir að hann harmi það að ekki sé hægt að halda starfsáætlun sem hafi verið sett fram. Hann segist vilja greiða fyrir því að leysa þessa deilu, þennan hnút, sem er núna í þinginu. Samt sem áður hefur hann dagskrárvaldið og hann hefði alveg getað sent skilaboð inn á þennan fund sem átti að verða á morgun í atvinnuveganefnd og greitt þannig fyrir því að leysa þetta með því að segja: Ég tek málið af dagskrá núna, þið afgreiðið þetta í atvinnuveganefnd, finnið lausn, komið með það til þingsins aftur þegar þið hafið fundið lausn, annars tek ég það ekki á dagskrá.

Hann hefði getað greitt fyrir því. Eða bara sagt: Ég tek það af dagskrá núna. Finnið lausn. Skoðum málið eftir helgi.

Þannig hefði hann getað greitt fyrir. Hann hefur valdið til að gera það.

Nú er búið að segja að fundurinn verði ekki í fyrramálið. Hvers vegna? Vegna þess að einn aðili í verkefnisstjórninni er erlendis. Nei, ég trúi því ekki að ekki sé hægt að fá þennan aðila á símafund það sem eftir er af þessum degi og fram á kvöld — (JónG: Það er búið að reyna það …) Hann segir að það sé ekki hægt (Gripið fram í: … formaðurinn …) og að ekki sé heldur hægt allan daginn á morgun að fá hann á símafund. Hvað þá með sunnudaginn? (Forseti hringir.) Hvað þá með mánudaginn? (Gripið fram í: Ég er alveg til í það.) Til í það? Formaðurinn er til í það. Heyrðu, þetta þykir mér mjög gleðilegt. (Gripið fram í.)