144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[14:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Því er haldið fram að þingið sé allt í uppnámi. (BirgJ: Já, það er rétt.)Það er enginn í uppnámi, virðulegur forseti, nema minni hlutinn í þessu þingi. Hann sýnir af sér slíka framkomu (Gripið fram í.) að annað eins á sér vart fordæmi í þinginu, a.m.k. ekki svo ég muni eftir. [Hlátur í þingsal.] Það er þingmönnum algjörlega ósamboðið að haga sér með þeim hætti (Gripið fram í.) sem hér kemur fram, en það er ágætt að fólk sýni stundum þjóðinni sitt rétta andlit. (BirgJ: Já.) (Gripið fram í.) Við sitjum undir hótunum um hjaðningavíg og (Gripið fram í.) lögleysu sem eru órökstudd tækifærisrök í þessu máli og hafa ekki verið rökstudd með einu einasta lögfræðilegu áliti. Þetta er staðan, virðulegi forseti.

Það kom fram beiðni frá hv. þm. Kristjáni L. Möller um að atvinnuveganefnd fundaði með verkefnisstjórn. Ég boðaði þann fund strax í fyrramálið, komst að því síðar að formaður verkefnisstjórnar er erlendis, kemur til landsins fyrri partinn á mánudag. Hann getur ekki verið með okkur á símafundi á morgun þar sem hann er upptekinn. Það er staðan í þessu máli. Ég er tilbúinn að funda hvenær sem er út af málinu, en í sjálfu sér á ég ekki von á því, virðulegi forseti, að neitt nýtt komi (Forseti hringir.) fram á þeim fundi. (Gripið fram í.) Nefndin hefur áður fundað með verkefnisstjórn út af þessu máli [Háreysti í þingsal.] og ég sé ekki hverju það ætti að breyta í sjálfu sér um málið. Ég veit ekki til þess að neinar nýjar upplýsingar hafi komið fram frá verkefnisstjórn um það. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) (GuðbH: Þá veit forseti hvað hann á að gera. …)