144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[15:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Af hálfu stjórnarandstöðunnar á sér ekkert ósæmilegt stað. Hér eru átök á milli fylkinga, stórvirkjanasinna, stóriðjusinna annars vegar og landverndarfólks hins vegar sem vill passa upp á landið okkar. Við munum aldrei taka því þegjandi þegar farið er út fyrir öll lögformleg ferli og reynt að þröngva í gegn náttúruspjöllum sem við getum ekki sætt okkur við. Halda menn að við höfum enga ábyrgð gagnvart þeim hluta þjóðarinnar (Gripið fram í.) sem hefur sent okkur inn á þing til að standa vörð um landvernd? Halda menn það? Ekkert ósæmilegt á sér stað af okkar hálfu. Hér er um það að tefla að stóriðjusinnar og virkjunarvæðingarsinnar ætla að valta okkur undir sig en það mun ekki gerast. Við munum ekki láta það gerast. (Forseti hringir.) Við höfum skyldur við landið og við kjósendur okkar og við ætlum að rækja þær skyldur.