144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[15:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ekki hægt að segja að það ríki sáttatónn, hvorki hjá hv. formanni atvinnuveganefndar né öðrum í stjórnarmeirihlutanum. Því er ekkert óeðlilegt að stjórnarandstaðan líti svo á, eins og hér hefur margoft komið fram, að um sé að ræða sýndarfund, hvenær svo sem hann verður haldinn. Hæstv. forseti talaði um að fundir væri boðaðir í samstarfi, en hv. varaformaður atvinnuveganefndar hafði ekki hugmynd um þegar boðað var til þessa fundar og hvers vegna hann afturkallaður fyrr en hún heyrði það úr ræðustól. Þar er ekki samvinnunni fyrir að fara.

Ef hér á að halda áfram og klára þing einhvern tímann í sumar eða hvenær það getur orðið verður að eiga sér stað samtal. Við verðum að ljúka þessari dagskrá, klára hana með sérstöku umræðunni, taka okkur svo hlé og koma vel hvíld eftir helgina til að ræða vonandi sæmileg málalok. Það logar allt, (Forseti hringir.) bæði á Alþingi og úti á vinnumarkaðnum.