144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[15:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég er mjög leið yfir þeirri stöðu sem upp er komin núna vegna þess að ég hafði væntingar til þess að til stæði að halda fund í atvinnuveganefnd og kalla fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar til að fara yfir einhver álitamál. Svo virðist sem ekki sé unnt að halda fundinn sem er umhugsunarefni út af fyrir sig. En virðulegur formaður atvinnuveganefndar kemur hingað og gerir fyrir fram mjög skýra grein fyrir því að hann telji að slíkur fundur hefði aldrei skilað neinu. Fyrir fram er hv. þm. Jón Gunnarsson búinn að komast að niðurstöðu í því máli. Eins og í afstöðunni til rammaáætlunar telur hann ekki að hann þurfi að hlusta á nokkurn mann og það er svo alvarlegt að við skulum vera á þessum stað, verri stað í dag en í gær, vegna þess að formaður nefndarinnar blæs til enn frekari ófriðar í þessu máli. Ég verð að segja að ég er mjög leið (Forseti hringir.) yfir þessu og mjög áhyggjufull yfir þeirri stöðu sem upp er komin og hv. þingmaður viðheldur, auk þess sem hann virðist hafa allt þingið undir í þessum leiðangri.