144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fundur í atvinnuveganefnd og umræða um rammaáætlun.

[15:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna umræðu um fund í atvinnuveganefnd sem ég óskaði eftir í morgun og formaður, hv. þm. Jón Gunnarsson, brást fljótt við og boðaði hann klukkan 9.30 í fyrramálið, sem ég var ánægður með, vil ég segja að nú er hins vegar komið í ljós að formaður verkefnisstjórnar er erlendis og kemur ekki til landsins fyrr en síðdegis á mánudag. Ég tel mjög mikilvægt að hann sitji fundinn. Þess vegna segi ég fyrir mitt leyti að þetta eru aðstæður sem við stöndum frammi fyrir nú. Allt í lagi, höldum fundinn þess vegna síðdegis á mánudag, vegna þess að rétt er að horfa til þeirra þingmanna sem fara út á land, eða á þriðjudagsmorgun. Forseti hefur boðið upp á það líka að þingfundur á þriðjudag gæti hafist seinna en klukkan 10. Þá höfum við meiri tíma fyrir fund í nefnd um morguninn.

Ég er ekki alveg sömu skoðunar og sumir sem hafa tekið til máls, að fundir í nefndum Alþingis skili ekki neinu. Þeir skila yfirleitt alltaf einhverju, þó mismiklu. Ég tel mikilvægt að þessi fundur verði haldinn og þess vegna segi ég fyrir mína parta að mér er sama hvort ég kæmi til fundar síðdegis á mánudag eða mánudagskvöld eða þriðjudagsmorgun, en mér er meinilla við hvítasunnudag, við kristilegir demókratar munum örugglega fara í kirkju þá eða halda þann dag hátíðlegan. (Gripið fram í.)