144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[15:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég bregðast við þeim orðum hv. þingmanns, sem ég vil gjarnan fá tækifæri til að þakka fyrir málið eða þessa umræðu, að í áliti lögmannsins Andra Árnasonar hafi falist sú niðurstaða að um einhvers konar lögbrot væri að ræða vegna sameiningar Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði. Ekkert slíkt kemur fram í því áliti. Það er einungis bent á að það þarf aðkomu þingsins í gegnum fjárlög eða fjáraukalög til að málið nái fram að ganga. Það er þekkt og að sjálfsögðu er unnið eftir því fyrirkomulagi. Ég skora á hv. þingmann að útskýra í síðari ræðu sinni nákvæmlega þau orð sem hún lét falla hér og vitna þá til lögfræðiálitsins en ekki fyrirsagna í fréttum.

Virðulegi forseti. Hvað varðar fyrstu spurningu hv. þingmanns er alltaf spurning hvað átt sé við með núverandi sveigjanleika. Núverandi sveigjanleiki eða öllu heldur núverandi kerfi sem er við lýði í framhaldsskólunum virðist stuðla að háu brotthvarfi nemenda úr námi og miklu róti nemenda milli námsbrauta og skóla. Um 40% nemenda hafa ekki náð formlegum námslokum sex árum eftir að þau innrituðust í framhaldsskóla. Þessi námsframvinda og staða setur Ísland á botninn í alþjóðlegum samanburði þegar skoðuð eru framhaldsskólakerfi annarra landa. Það er það kerfi sem er verið að ræða um.

Við þekkjum líka að það er mikið vandamál hjá okkur varðandi annars vegar bóknám og hins vegar verknám. Allt of fáir nemendur fara í verknám. Þessi þróun, ásamt því að við erum eina þjóðin innan OECD sem tekur 14 ár að undirbúa nemendur frá því að þeir byrja í grunnskóla og þar til þeir koma í háskólann meðan allar aðrar þjóðir gera það á 13 árum eða 12, hefur gert það að verkum að okkar nemendur eru eldri þegar þeir ljúka námi og endurspeglast meðal annars, ásamt auðvitað brottfallinu eða brotthvarfinu, í því að meðalaldur nemenda sem klára BA- og BS-gráðu á Íslandi er 30,6 ár. Engin þjóð innan OECD kemur nálægt okkur í þessu. Þetta er ekkert annað en sóun, illa farið með tíma, kemur niður á ævitekjum námsmanna, og það er ekkert skrýtið þó að BHM, sem stendur einmitt í átökum um kaup og kjör, skuli hafa lagt áherslu á það í mennntastefnu sinni að námstími til stúdentsprófs verði styttur. Og það er það sem er verið að gera hér, virðulegi forseti.

Áfram hvað varðar sveigjanleikann er rétt að nefna að eiginlegur starfstími nemenda með kennurum í gamla kerfinu er 145 dagar en með breytingum á kjarasamningum núna fyrir skömmu er búið að breyta þeim hlutum þannig að lengd starfstíma skóla hefur farið úr 175 dögum, þar af eru 30 dagar ætlaðir fyrir próf, upp í 180. Það sem meira er er að í síðustu kjarasamningum var samið um að afnema skilin milli prófa- og kennslutíma. Þetta gerir það að verkum, virðulegi forseti, að sveigjanleikinn í kerfinu hefur aukist til mikilla muna.

Skólarnir munu líka fá meira svigrúm til að hanna námsbrautir og aðlaga kennsluhætti og framkvæmd námsmats. Þetta skiptir miklu máli hvað varðar sveigjanleikann. Eins er (f)-einingakerfið svokallaða miklu nemendavinsamlegra en gamla kerfið, það er búið að taka það upp, og með einmitt breytingum á kjarasamningum settum við saman vinnutíma kennaranna og vinnutíma nemendanna sem býr til enn meiri sveigjanleika í þessu kerfi. Og ég er þeirrar skoðunar að sveigjanleiki í nýju kerfi sem er verið að hanna verði ekki síðri en sá sveigjanleiki sem er í kerfinu núna, enda er ekki verið að tala um það að allir nemendur verði að klára á sama tíma, eins og stundum heyrist í umræðunni.

Virðulegi forseti. Það má ekki gleyma því að við höfum þegar reynslu af þriggja ára námi. Halda menn því virkilega fram að til dæmis Tröllaskagaskóli sé eins og Kvennaskólinn þótt báðir séu þriggja ára skólar, að það sé bara nákvæmlega sami hluturinn? Þeir sem því halda fram hafa ekki fylgst mjög vel með menntamálum á Íslandi á undanförnum árum.

Hvað varðar fjölbreytileikann áfram má geta þess að um 4.925 áfangar í kerfinu eru skráðir í gagnagrunn ráðuneytisins. Meðalstór framhaldsskóli kennir um 250 ólíka áfanga. Það er auðvitað mikill sveigjanleiki í kerfinu og hann mun ekki fara vegna þessa.

Hvað varðar spurninguna með Menntaskólann í Reykjavík er það svo að framhaldsskólar hafa um árabil tekið við nemendum upp úr 9. bekk grunnskóla. Það er ekki hægt að hafa það þannig að það verði einhverjar sérreglur um Menntaskólann í Reykjavík þótt góður skóli sé. Það kallar líka á allt aðra umfjöllun og allt aðra nálgun sem snýr að verkaskiptingu milli sveitarfélaga og ríkis, sú spurning sem hv þingmaður tæpti á.

Hvað varðar skólana úti á landi sagði ég í þinginu í gær að ekki væri verið að tala um sameiningu stofnana. Við erum að tala um samþættingu og samvinnu til að bregðast við því að það er að fækka í árgöngunum. Það er rétt að það er verið að fara úr fjögurra ára kerfi í þriggja ára kerfi sem leiðir til fækkunar og bætt atvinnuástand leiðir líka (Forseti hringir.) til fækkunar.

Virðulegi forseti. Markmið mitt er að nýta betur þá þjónustu, þá sérfræðiþekkingu og annað sem býr í stofnununum á landinu öllu þannig að það sé hægt að bjóða upp á betra og öflugra nám fyrir nemendur alls staðar á landinu.