144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[15:42]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það kemur ekki fram hjá hæstv. ráðherra að hann hafi umboð til þess að ákveða fyrst hvað gera skuli og svo megi ræða málin eftir á þegar ákvörðun liggur fyrir, en það er dapurlegt að fylgjast með því að hæstv. ráðherra er að keyra menntamálin hér í bullandi ágreining, málaflokk sem þarf ekki að vera í ágreiningi og hefur lengstum ekki verið það. Það er engin menntastefna nema menntastefna hæstv. ráðherra og skilaboðin sem berast inn í þingið eru í gegnum fjárlög, jafnvel með nefndarálitum frá meiri hluta fjárlaganefndar eða með tilvísun í hagræðingarhóp sem kom með 111 tillögur sem ekki hafa verið ræddar í þinginu á einn eða neinn hátt.

Við höfum ekki fengið nein svör um það hvernig stytting náms muni bitna á nemendum. Hvaða greinar falla niður, eru það íþróttir og list- og verkgreinar? Hvaða áhrif hefur þetta á framhaldsskólana á landsbyggðinni sem eru í miklum vandræðum? Við vitum að það eru hugmyndir um sameiningar. Hvernig eiga þær að birtast? Framhaldsdeildir eru í uppnámi. Það er ekki búið að ákveða hvernig iðn- og starfsnám á að koma út í þessari styttingu. Það eru engar formlegar tillögur eða umræður komnar varðandi það.

Það sem mig langar þó aðallega að gera að umtalsefni er nýleg rannsókn sem birtist í Vísi og var vitnað í í gær þar sem Sigrún Harðardóttir, lektor við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, vekur athygli á því að brottfallið í framhaldsskólum er fyrst og fremst hjá nemendum í almennum deildum. Að mestu leyti er eðlileg námsframvinda hjá öllum hinum. Þetta er til dæmis eitt af því sem þyrfti að ræða og skoða í staðinn fyrir að koma alltaf hingað með sömu tölurnar úr misgömlum OECD-skýrslum. Er þetta tilfellið eins og viðkomandi kona, Sigrún Harðardóttir, segir, með leyfi forseta:

„Eins og staðan er í dag þá er ekki bara um að ræða brotthvarf úr námi heldur má segja að skólarnir stundi ákveðið brottkast á ákveðnum hópi nemenda sem slakast standa við lok grunnskóla.“

Þá spyr maður: Er þetta aðferðin sem á að nota til að minnka brottfall, þ.e. með því að útiloka þá nemendur sem lakast standa og koma þeim í eitthvert annað kerfi? (Forseti hringir.) Það eru svona hlutir sem við viljum fá að ræða hér. Við viljum líka fá að ræða um Iðnskólann í Hafnarfirði þegar menn vísa í að það sé lögleg aðgerð af því (Forseti hringir.) að ósk um heimild komi seinna inn í þingið þegar skólinn hefur þegar tekið til starfa. Ég óska eftir því að sú sérstaka umræða sem hefur verið (Forseti hringir.) boðuð eða óskað eftir um það mál verði fljótt á dagskrá.