144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[15:44]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að minna okkur öll á gamla vísu sem aldrei verður of oft kveðin og hún er sú að kerfin sem við smíðum til að leysa sameiginleg verkefni eiga að þjóna þörfum fólksins, margbreytilegum þörfum fólks í fjölbreytilegu samfélagi. Kerfi sem ekki gera það eru vond og gölluð og oft mjög skaðleg. Þetta á alveg sérstaklega við um skólakerfið sem á að hjálpa ungu fólki til að afla sér menntunar. Allir vita að góð menntun eftir áhuga og hæfileikum hvers og eins einstaklings getur ráðið afar miklu um margvísleg tækifæri hans í lífinu. Hvernig tryggjum við að kerfin verði í sem bestu samráði við hagsmuni og þarfir þeirra sem þau eiga að þjóna? Jú, hæstv. forseti, með miklu samráði við þá sem best til þekkja og mestra hagsmuna hafa að gæta. Það er engin önnur betri leið til þess.

Mér finnst raunar að allir sem fara með opinbert vald fyrir hönd almennings eigi að hafa kjörorð það sem Öryrkjabandalagið og samtök fatlaðs fólks leggja mikla áherslu á, og ekki að ástæðulausu, innrammað uppi á vegg á skrifstofum sínum: Ekkert um okkur án okkar!

Ég hnykki á þessu hér því að mér finnst ástæða til að ætla að hæstv. menntamálaráðherra hafi ekki hirt um að hafa nægilegt samráð við þá sem mestu máli skiptir að hlusta á við skipulag menntakerfisins. Rannsóknir sýna að brottfall úr framhaldsskólum er allt of mikið á Íslandi og alveg sérstaklega í ákveðnum hópi ungmenna, svo sem hjá börnum innflytjenda og nemendum með raskanir af einhverju tagi.

Ég vil í þessu samhengi hvetja ráðherra til að lesa viðtal við Sigrúnu Harðardóttur sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom inn á áðan, en hún er lektor við Háskóla Íslands. Í Fréttablaðinu í gær var birt viðtal við hana sem hefur fyrirsögnina „Þeir verst settu eiga litla möguleika“. Ég hvet hæstv. ráðherra til að lesa þetta viðtal.

Ég vona að ráðherra hafi miklar áhyggjur af þeirri alvarlegu mismunun til náms sem þar er lýst og muni bregðast skjótt við með tillögur til að bæta úr og að sjálfsögðu að höfðu miklu samráði við þá sem best þekkja til. Það er lykilatriði.