144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[15:47]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að hefja máls á þessu. Það er ekki langt síðan sú sem hér stendur stundaði nám í framhaldsskóla. Það sem ég tel mesta kostinn við styttingu náms til stúdentsprófs er að nemendur muni stunda hnitmiðaðra nám og þurfa að vera skipulagðari við nám sitt. Þegar námsleiðir verða skoðaðar upp á nýtt verður þar af leiðandi komið í veg fyrir að hluti af byrjun framhaldsskólanámsins fari aðeins í upprifjun í stað þess að halda áfram námi og kennslu. Með þessu verður menntun nemenda á Íslandi nær þeirri menntun sem fæst í löndum í kringum okkur og þeir því samferða jafnöldrum sínum þar.

Metnaður ungs fólks er mikill og sumir eru farnir að nýta sér dreifnám til að stunda fjarnám eða dreifnám frá öðrum skóla með þeim skóla sem þeir stunda staðnám í til að klára fyrr og í einhverjum skólum er möguleiki að klára vissar námsbrautir fyrr en ella, á þremur eða jafnvel tveimur árum. Nemendur vilja vera á pari við jafnaldra sína í löndum umhverfis okkur.

Landfræðilega séð eru aðrar aðstæður á Íslandi. Með því að bjóða upp á gott dreifnám og fjarnám, auk þess að stytta nám, verða nemendur sem búa úti á landi á pari við þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu og þeir sem kjósa að búa í dreifbýli til jafns við þá sem í þéttbýli búa. 15–16 ára einstaklingar eiga ekki að þurfa að flytja að heiman til að geta notið fyrsta flokks náms.

Hættan er að skólar vilji halda of fast í nákvæmlega það umhverfi sem þeir starfa í í dag, en ef skólar festast í einu fari verða þeir sjálfstopp eftir ekki svo mörg ár því að samfélagið er í stöðugri þróun. Tækninni fleygir fram, nýir möguleikar til náms og nýjar námsbrautir líta dagsins ljós og skólarnir verða að fylgja þeirri öldu, fylgja samfélaginu og breytingu sem nemendur þeirra lifa og hrærast í og ekki alltaf festa okkur í hugsuninni „Hvað ætlum við eigum að gera núna?“ heldur stöðugt hugsa „Hvað getum við gert?“

Skólar og samfélagið á hverjum stað þurfa að virkja frumkvæðið og finna taktinn til að stíga (Forseti hringir.) jafnt til jarðar. Auðvitað getum við síðan spurt okkur hvar samnýtingin og sameiningin eigi að fara fram, hvort rétta leiðin sé að sameina skólana eða hvort við getum frekar sameinað þjónustu við skólana.