144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[16:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er mjög hlynnt breytingum í skólakerfinu. Það er alveg kominn tími á þær. Mig langar að vitna í orð fyrrverandi menntamálaráðherra um það sem er í gangi núna og tel fyllstu ástæðu fyrir þingmenn meiri hlutans og þingmenn í allsherjar- og menntamálanefnd að hlusta vel á.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp úr grein á Eyjunni með tilvísun í fyrrverandi menntamálaráðherra:

„Stytting framhaldsskólanáms og fyrirhugaðar sameiningar framhaldsskóla eru stórpólitískar ákvarðanir um fjölmenna opinbera vinnustaði og ganga ekki upp án samráðs og samvinnu. Buslugangurinn í kringum Fiskistofu og flutning hennar ætti að þessu leytinu að vera ráðherrum og ráðuneytum víti til varnaðar.

Þetta skrifar Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, á vefsíðu sína. Björn segir að það sé undrunarefni hve litlar opinberar umræður hafi orðið um breytingar á framhaldsskólanum, það er styttingu hans.

„Hún var vissulega til skoðunar þegar ég var menntamálaráðherra fyrir 20 árum. Við fyrstu sýn þótti mér hún góðra gjalda verð en snerist síðan hugur við nánari athugun vegna þess að ég taldi sveigjanleika og frjálsræði innan framhaldsskólans mikilvægara markmið.“

Björn segir sömuleiðis að nú berist fréttir um að ákvarðanir séu teknar um framtíð skóla í eigu ríkisins, án þess að þeir sem hlut eigi að máli séu hafðir með í ráðum. Kennarar og nemendur komi þannig ekki að ákvarðanatöku og ekki heldur bæjar- eða sveitarstjórnir, eins og komi fram í umræðum um Iðnskólann í Hafnarfirði eða sameiningar skóla á Norðurlandi eystra. Það sé ekki vænlegt til árangurs.“

Síðan er auðvitað hægt að horfa til þeirrar reynslu sem hv. þm. Óttarr Proppé benti á, að það sé mikilvægt að læra af sameiningu á skólum hér í borginni. Því vil ég brýna hæstv. menntamálaráðherra í að hlusta á þessi góðu ráð og hafa þetta ferli með mun víðtækara samráði en nú þegar er.