144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Því er ekki að leyna að ég er mjög ósátt við að vera sett í ræðu á þessum tíma þegar ekki liggur fyrir hvert framhald málsins verður. Mér finnst þetta þannig virðingarleysi við mig sem þingmann að ég á eiginlega ekki orð, hæstv. forseti, að þurfa að láta þetta yfir mig ganga. Ég veit ekki inn í hvaða aðstæður ég er að tala í þinginu og ég vona að hv. formaður atvinnuveganefndar sé hér hlæjandi að einhverju gríni á netinu en ekki að orðum mínum, ætti kannski að hugsa um allar þær lexíur sem hafa heyrst hér frá stjórnarliðum um það hvernig við þingmenn eigum að haga okkur.

Við erum sem sagt hér að ræða þingsályktunartillögu hæstv. umhverfisráðherra um að setja Hvammsvirkjun í virkjunarflokk í rammaáætlun og mögulega breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar um að fjölga þeim kostum um fjóra sem og breytingartillögu við breytingartillöguna um að fækka þeim síðan aftur um einn. Ég veit ekki hvort hæstv. forseta finnst að þingmenn komi bara hér í stólinn til að eyða tímanum eða hvort hæstv. forseti telur að við viljum yfirleitt tala í einhverju heildarsamhengi. Ég lít svo á að hæstv. forseti beri enga virðingu fyrir þingmönnum og telji þá koma í ræðustól til að þvæla eitthvað. Það harma ég mjög. Ég mun hafa það í huga og gleymi því ekki fljótlega. Að máli mínu loknu mun ég óska eftir skýringum frá hæstv. forseta á þessari framkomu við mig sem þingmann hér.

Við erum að fjalla um þingsályktunartillögu sem byggir á lögum um rammaáætlun. Við erum allnokkur í þessum sal sem höfum talað dag eftir dag um fundarstjórn forseta til að mótmæla því að breytingartillagan við þingsályktunartillögu sé á dagskrá af því að við teljum það stangast á við lögin. Það er einmitt það sem mögulega á að leysa á kannski einhverjum fundi sem verður þá haldinn eftir að ég flyt ræðu mína.

Við teljum þetta ekki í samræmi við lögin. Atvinnuvegaráðuneytið hefur efasemdir um það og við höfum oft vitnað í minnisblað umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um að þetta sé ekki í samræmi við lögbundið ferli um rammaáætlun. Þar af leiðandi höfum við óskað því að málið verði tekið af dagskrá. Við því hefur ekki verið orðið og ég þarf því væntanlega að haga mér hér eins og þetta sé hin raunverulega fyrirætlun. Þetta er furðuleg staða sem ég er sett í og algjörlega óþolandi.

Við erum að ræða þessa tillögu þegar samfélagið logar í verkföllum. Hæstv. forsætisráðherra hefur komið hingað og talið okkur trú um að offorsið í þessu máli hafi eitthvað með kjaraviðræðurnar að gera. Aðilar vinnumarkaðarins hafa bent á að þetta mál hefur aldrei komið inn á borð í umræðum um kjarasamninga. Ríkissáttasemjari hefur bent á að djúpstæður vandi tengist kjaradeilunum, þetta sé ekki eingöngu spurning um launakjör og það vitum við öll. Fólk er algjörlega búið að fá upp í kok af aukinni misskiptingu þegar kemur að eignum og því hvernig við, almenningur á Íslandi, fáum ekki að njóta að fullu arðsins af auðlindunum í eðlilegu samhengi við eignarhald okkar á þeim. Ég hefði viljað vera hér að ræða við hæstv. forsætisráðherra um það með hvaða hætti þingið ætlar að koma — það eru svo mikil læti hérna inni, herra forseti, að það er varla hægt að einbeita sér. Ég er líka svo ósátt við þessa fundarstjórn að það er varla að ég vilji halda þessa ræðu. (Gripið fram í.) Jæja.

(Forseti (KLM): Forseti biður um að þingmenn í sal gefi ræðumanni tækifæri á að halda ræðu sína.)

Hér hefði ég viljað vera að ræða við hæstv. forsætisráðherra um hvað hann sér og hvað við sjáum sem lausn inn í þessa deilu. Ég tel að nú ætti Alþingi að nýta tækifærið og sameinast um að breyta stjórnarskránni og koma í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum og að ef samningar séu gerðir um nýtingu þeirra komi fyrir fullt gjald. Það er nokkuð sem við gætum gert hér núna.

Það sem við gætum líka gert væri að auka aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatöku með því að setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskrá. Ef Alþingi sæi sóma sinn í þessu værum við að senda út skilaboð og búa til umhverfi sem gæfi tækifæri til samninga. Ég endurtek óskir mínar um að við fáum skýrslu hæstv. forsætisráðherra um stöðuna á vinnumarkaði. Við verðum að ræða þessa hluti. Við þurfum líka að ræða vaxandi misskiptingu þegar kemur að eignum því að það grefur undan samfélagi okkar, elur á sundurlyndi og vantrausti. Þetta er þróun sem því miður hefur átt sér stað um allan heim, þetta er afleiðing óheftrar frjálshyggju og þetta grefur undan lýðræði í okkar heimsálfu sem og öðrum, þessum öfgaöflum vex fiskur um hrygg vegna óánægju almennings með að stjórnmálamenn hafi ekki gætt hagsmuna almennings.

Nú er ég búin að tala aðeins um verkföllin, þau sem ég hefði viljað ræða hér í staðinn fyrir þessa eymdarbreytingartillögu. Fulltrúi okkar samfylkingarfólks, hv. þm. Kristján L. Möller, skilar minnihlutaáliti og þar kemur fram skýr afstaða Samfylkingarinnar. Við styðjum rammaferlið. Ég er ekki virkjunarsinni. Ég væri tilbúin að virkja ekkert næstu 25 árin, en ég hef líka staðið að lagasetningu og samþykktum þingsályktana í anda rammalöggjafar. Ég tel farsælt að við séum með leikreglur sem við erum sammála um og að fólk mætist á miðri leið í málum sem varða virkjanir. Þetta hafa verið deilumál áratugum saman á Íslandi. Sem andstæðingur frekari virkjana í bili er ég samt sem áður tilbúin að standa með þessu ferli. Það er afskaplega sárt að upplifa að sú sátt er engin því að það er ekki vilji til að fara að leikreglunum.

Það eru fjölmargar umsagnir um þetta mál og það eru auðvitað fjölmargir aðilar sem eru ánægðir með breytingartillöguna sem vilja sjá allt fara í gang til að virkja, vilja fá gamla góða ástandið þegar við spýttum í og hituðum hagkerfið rækilega upp fyrir skammtímaávinning, gerðum síðan samninga um smánarlegt raforkuverð til fyrirtækja sem greiða ekki skatta á Íslandi heldur eru með bókhaldstrix þannig að eðlilegir skattar koma ekki af starfsemi þeirra hér á landi. Með þessari breytingartillögu er verið að boða afturhvarf til þess tíma því að það er engin sérstök eftirspurn eftir þessari raforku. Það eru engir sem bíða í röðum eftir að fá hana. Við höfum alla burði til þess með fyrirhyggju að geta útvegað fyrirtækjum sem við teljum eftirsóknarverð fyrir íslenskt hagkerfi og íslenskan almenning þá raforku sem þarf. Það er ekkert vandamál ef það er innan skynsamlegra marka.

Ég er eins og öllum á að vera ljóst fulltrúi fyrir Samfylkinguna á Alþingi. Við vorum á landsfundi í mars sl. og þar samþykktum við meðal annars umhverfisstefnu. Hún var uppfærð og yfirfarin og þar er lögð áhersla á að rammaáætlun verði ekki eyðilögð. Samfylkingin lagði mikið af mörkum til að hún yrði að veruleika á sínum tíma en við óttumst nú mjög um afdrif hennar. Þar er lögð áhersla á að Alþingi eyðileggi ekki vinnu næstum tveggja áratuga. Þar er líka lýst yfir vilja til að stofna þjóðgarð á miðhálendinu og það kemur beint inn í þessa breytingartillögu. Ég ætla að vitna í þá ályktun, hæstv. forseti. Þar segir:

„Samfylkingin vill að næsta skref til verndar og sjálfbærrar nýtingar náttúrusvæða sé að koma í veg fyrir frekari röskun miðhálendisins. Landsfundurinn lýsir yfir stuðningi við tillögur náttúruverndarsamtaka um að stofna þjóðgarð á miðhálendinu. Með þjóðgarði má tryggja varðveislu hinna miklu náttúruverðmæta miðhálendisins og tryggja að merkileg náttúra verði sjálfbær uppspretta atvinnu, arðs og upplifunar fyrir alla.“

Svo koma hér útlistanir á því hvernig umgjörðin yrði um þetta og hvernig þessu yrði háttað. Ég held að til dæmis Skrokkölduvirkjun sem á að þrýsta í gegnum þingið, í gegnum eina umræðu án þess að faglegt mat liggi fyrir, ógni beinlínis þessum vilja og þeirri fyrirætlan að koma á þjóðgarði á miðhálendinu. Það er mikilvægt að við höfum í huga að umhverfisvernd, loftslagsmálin og náttúruvernd eru mál sem krefjast langtímahugsunar. Miðhálendið er einstakt náttúrusvæði í Evrópu, við Íslendingar eigum einstakt náttúrusvæði. Það er svo mikil skammsýni fyrir tímabundna hagsmuni að eyðileggja þá heild sem miðhálendið er. Þó að það sé flókið í þessari umræðu af því að hún er öðrum þræði tæknileg, af því að við erum að mótmæla því að verið sé að eyðileggja leikreglurnar, eru líka þarna inni kostir sem eru í andstöðu við hagsmuni okkar til lengri tíma. Það er vaxandi hópur fólks sem vill ekki að miðhálendið verði eyðilagt. Mér finnst að það eigi að taka þetta alvarlega. Af hverju þarf að klína þessari virkjun þarna inn akkúrat á þessum tímapunkti? Getur fólk ekki bara andað í kviðinn og beðið eftir niðurstöðu? Er kannski meðvitund um að það sé vaxandi skilningur á mikilvægi þess að eiga ósnortna náttúru og þess vegna sé eins gott að flýta sér áður en einhverjir grænir villingar fari að eyðileggja áform um frekari virkjanir?

Sú atvinnugrein sem aflar mestra gjaldeyristekna er ekki ánægð með breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar. Ég ætla að vitna beint í umsögn hennar því að hún er nokkuð afgerandi. Í umsögn frá Samtökum ferðaþjónustunnar segir, með leyfi forseta:

„Samtökin telja mjög ámælisvert og lýsa sig algerlega mótfallin að kostir sem áður hafa verið samþykktir, með þingsályktunartillögu, í biðflokk samkvæmt lögum nr. 48/2011, um orkunýtingaráætlun, séu dregnir fram í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu af atvinnuveganefnd. Er það mat samtakanna að þessi aðför rýri trúverðugleika atvinnuveganefndar og þess ferlis sem rammaáætlun byggir á.“

Því miður rýrir þessi tillaga ekki eingöngu trúverðugleika atvinnuveganefndar og meiri hluta hennar. Tillögur sem þessar rýra almennt trúverðugleika stjórnmálanna. Svona tillögur grafa undan trausti fólks á því að við séum að vinna að almannahagsmunum. Ferðaþjónustan er ekki ánægð með þetta.

Síðan hef ég komið í ræðu um fundarstjórn og varið heiður flokkssystur minnar, hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, sem vann að gerð þingsályktunar um rammaáætlun ásamt hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur þegar þær sátu í ríkisstjórn. Þær hafa verið vændar um hrossakaup og pólitíska leiki og þá er mikilvægt að hugsa: Hér er hið pólitíska vald að taka ákvarðanir um nýtingu. Á síðasta kjörtímabili tók hið pólitíska vald ákvarðanir á grundvelli lögbundins ferlis um umsagnir sem þurfti að taka tillit til, ákvarðanir um að færa úr nýtingarflokki í biðflokk sem ætti í raun að heita rannsóknarflokkur. Þar voru ekki með pólitískum ákvörðunum teknar ákvarðanir inn í framtíðina heldur var eingöngu verið að segja: Hér ætlum við að láta náttúruna njóta vafans. Við ætlum að setja þetta inn í flokk til frekari rannsókna. Þar var ekki verið að taka endanlega ákvörðun. Á þessu er gríðarlega stór munur og ég bið hv. þingmenn að hafa það í huga. Hið pólitíska vald leyfði sér ekki á síðasta kjörtímabili að taka ákvarðanir um nýtingu eða vernd fram hjá hinu faglega mati, heldur voru teknar ákvarðanir um frekari rannsóknir vegna fjölda umsagna sem barst um málið.

Út frá hagfræðilegum sjónarmiðum skil ég heldur ekki af hverju þingmenn vilja aftur koma á kaupendamarkaði. Ég hélt að við vildum einmitt að það yrði umframeftirspurn eftir orku þannig að við gætum samið um sem hæst verð þannig að við fengjum sem mestan arð af orkuauðlindunum okkar. Það þarf ekki mikla þekkingu í hagfræði eða bara almennt almenna skynsemi til að skilja að það bætir ekki hag landsmanna á nokkurn hátt að safna orku á lager, en það er svo sem ekki nýlunda að ég skilji ekki meiri hlutann í þessu þingi.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti. Ég endurtek hversu ósátt ég er við að vera sett í þessa aðstöðu. Ég harma það að hæstv. forseti taki ekki mark á beiðni okkar þingmanna um að við vitum inn í hvaða samhengi við erum að tala. Ég ætla að ljúka máli mínu á því að endurtaka ósk mína um að hæstv. forsætisráðherra komi í þingið með skýrslu og ræði við okkur um þá grafalvarlegu stöðu sem er uppi á vinnumarkaði.