144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Ég er alveg sannfærð um að orkusala getur verið Íslandi mjög til framdráttar og við þurfum að vera vakandi fyrir því að selja orku þegar það hentar okkur og þegar það hentar íslensku hagkerfi. Ég held að hér sé verið að líta til mjög þröngra hagsmuna.

Ef fólk vill endilega virkja þá er hugarafl um það bil það besta sem við gætum virkjað á þessum tímapunkti og það gerum við með því að styðja myndarlega við menntakerfið, setja fjármuni inn í rannsóknir, setja fjármuni inn í skapandi greinar, það kostar miklu minna, skilar mun meiru og gerir Ísland að eftirsóknarverðari stað til að búa á og dregur úr því að fólk flýi land núna, sem er áhyggjuefni þegar uppgangur er að koma upp í samfélaginu, að þá sé fólk að fara af því að það trúir ekki á framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar.