144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður þá ekki skilið öðruvísi en svo að Samfylkingin, sem telur sig þurfa að standa vörð um náttúruna, telur heppilegra að virkja á Svartsengissvæðinu og Krýsuvíkursvæðinu í jarðvarmavirkjunum en í neðri hluta Þjórsár.

Ég ítreka spurninguna varðandi Skrokköldu og vil taka það fram varðandi hana að þarna er um að ræða virkjunarkost sem skoraði mjög hátt í nýtingu en mjög lítið í vernd. Virkjunin sjálf er í raun inni í göngum sem eru á milli tveggja manngerðra lóna og raflínan frá virkjuninni verður í jörðu. Þá er nú eiginlega búið að leysa þau mál sem alla vega verkefnisstjórnin gerði athugasemdir við núna við ramma 3.

Mig langar líka að heyra örstutt frá hv. þingmanni um hugmyndir um sæstreng. Samfylkingin hefur verið áhugasamur flokkur um að skoðað sé nánar og jafnvel farið út í það að leggja sæstreng til Evrópu. Það væri þá áhugavert að heyra hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) hvernig bregðast eigi við því, hvað hún telji að fara þurfi í miklar orkuframkvæmdir í landinu, þ.e. í byggingu virkjana, til þess að mæta þeirri þörf sem þar skapast.