144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Enn og aftur sjáum við þetta mál á dagskrá þingsins. Á sama tíma eru yfirvofandi verkföll nú þegar farin að hafa mjög skaðleg áhrif á ferðaiðnaðinn í landinu og skaðinn mun halda áfram að versna svo lengi sem þetta þing og þessi ríkisstjórn tekur ekki á vandanum með viðunandi hætti. Á meðan þetta mál er á dagskrá verður þingið fast í þessari stöðu, annars er minni hlutinn settur í þá stöðu að ýmist að þurfa að fórna rammaáætlun eða ferðaiðnaðinum. Það er staða sem ekki er hægt að bjóða fólki, hvorki þingheimi né nokkrum öðrum. Við erum sett á milli steins og sleggju og við komumst ekki úr þeirri stöðu á meðan þetta mál er á dagskrá. Það liggur ljóst fyrir og verður bara ljósara með tímanum. Það liggur á að hið háa Alþingi, virðulegur forseti og hæstv. ríkisstjórn taki sig saman og reyni að beina þessu þingi inn á þau málasvið sem eru aðkallandi, það er meðal annars staðan á vinnumarkaðnum og í beinu framhaldi restin af þeim iðnaði sem við stólum á.