144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Um helgina tók hæstv. forsætisráðherra þjóðina í kennslustund um það hver skynjun hennar á veruleikanum væri, eða rofið á milli skynjunar hennar og veruleikans. Ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti að líta í eigin barm og velta fyrir sér hinum veruleikanum sem hérna úti. Veruleikinn hérna úti er sá að það eru 48 dagar liðnir þar sem ríkið hefur ekki samið við stóra hópa innan BHM. Í veruleikanum eru hjúkrunarfræðingar að hefja verkfall á miðnætti í kvöld. Skynjun hæst. forsætisráðherra er sú að hann þurfi ekkert að taka á því máli, hvað þá að ræða það við þingið, það komi okkur ekkert við og menn eigi bara bíða eftir almenna markaðnum. Ég held meira að segja að skynjun hæstv. forsætisráðherra á málinu sé þannig, hann talar að minnsta kosti eins og ríkinu komi þessar kjaradeilur bara ekkert við yfir höfuð. Ríkið er viðsemjandi við þessa aðila. Ríkið ber á þessu ábyrgð. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það er um þetta sem við í minni hlutanum hér á Alþingi viljum tala.