144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er í þeim hópi sem varð frekar dapur að koma að þessari dagskrá óbreyttri hér í dag eftir það sem á undan er gengið. Að vísu bar það til tíðinda um helgina að hæstv. forsætisráðherra kom í leitirnar, sem búið var að auglýsa mikið eftir og óska eftir til umræðna á þinginu. Hann kom í leitirnar í fjölmiðlum og var þar með ýmsar skeytasendingar og útlistanir sem beindust að þjóðinni, verkalýðshreyfingunni og stjórnarandstöðunni. Hann reyndi að vísu að éta eitthvað af því ofan í sig aftur í morgun.

Maður spyr sig: Með hverjum er hæstv. forsætisráðherra í liði? Það er ekki þjóðin. Það er ekki verkalýðshreyfingin eða aðilar vinnumarkaðarins. Það er alla vega ekki stjórnarandstaðan. Hann skorar endalaust sjálfsmörk. Ég held að stjórnarliðið þurfi að fara að setja mann á hæstv. forsætisráðherra í vörninni svo að hann skori ekki endalaust í eigið mark. Það verður einfaldlega að fara að gera það. Ef einhvers staðar er í gangi rof á milli veruleika og skynjunar þá er það hjá forsætisráðherra sem les svona í stöðuna, að ætla að bæta um betur yfir helgina með því að henda sprengjum í allar áttir.

Herra forseti. Það (Forseti hringir.) verður einhvern veginn að fara að koma böndum á þetta ástand (Forseti hringir.) og það verður að takast þrátt fyrir forsætisráðherra þjóðarinnar (Forseti hringir.) en ekki vegna hans.