144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:39]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson lýkur gjarnan þingræðum sínum á því að segja að að endingu leggi hann til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. Það hefði verið mjög æskilegt í morgun að geta orðið vitni að fundi atvinnuveganefndar þannig að allir hefðu getað verið á sömu blaðsíðu gagnvart þeim upplýsingum sem þar komu fram, ekki síst stjórnarmeirihlutinn. Mér skilst að þar hafi komið fram mjög skýrum stöfum að verkefnisstjórn mundi geta lokið yfirferð yfir þá virkjunarkosti sem út af standa í september árið 2016. Mér skilst að Landsvirkjun hafi greint frá því að hún gæti ekki hafið vinnu við virkjun númer 2, þ.e. virkjun eftir Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, fyrr en árið 2018, eftir þrjú ár. Maður hlýtur því að spyrja sig hvað stjórnarmeirihlutanum liggi eiginlega á. Af hverju þurfa stjórnarliðar að klára að skila Holtavirkjun inn í nýtingarflokk núna þegar árið er 2015? Þeir hafa heilt ár og rúmlega það til þess að bíða eftir (Forseti hringir.) niðurstöðu verkefnisstjórnar. (Forseti hringir.) Þetta er óskiljanlegt.