144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

ástand á vinnumarkaði og orð forsætisráðherra í fjölmiðlum.

[13:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það alvarlega ástand sem nú er á vinnumarkaði og versnar dag frá degi. Við blasir verkfall hjúkrunarfræðinga í kvöld og velferð sjúkra er komin í algert uppnám. Hvarvetna sem maður kemur hefur fólk alvarlegar áhyggjur af stöðunni á vinnumarkaði og þeim afleiðingum sem stórfelld verkföll munu hafa fyrir efnahagslífið, atvinnu fólks og velferð okkar allra. Við þær aðstæður skiptir auðvitað máli að leggja gott til. Hæstv. forsætisráðherra afrekaði það um helgina að fara þrisvar sinnum í viðtöl, ef mér telst rétt til, og ná í öll skiptin að spilla fyrir þeim tilraunum sem þó eru í gangi á vinnumarkaðnum til þess að leita lausnar. Það var orðið sjálfstætt fréttaefni hjá fjölmiðlum undir lok helgarinnar að inna menn eftir viðbrögðum við síðustu tilraunum hæstv. forsætisráðherra til að spilla fyrir viðræðunum.

Ég vil þess vegna gefa hæstv. forsætisráðherra tækifæri núna til þess að leggja gott til, ég held að við viljum öll leysa úr þessum vanda. Við í Samfylkingunni höfum lagt áherslu á nokkur atriði sem hljóta að vera til þess fallin að greiða fyrir lausn við þessar aðstæður: Að setja lágtekju- og millitekjufólk í forgang með breytingum á skattkerfinu, aðstoða leigjendur með meira framboð á leiguhúsnæði og hærri húsaleigubótum, verðleggja makrílinn með sanngjörnum hætti og aðrar sameiginlegar auðlindir okkar þannig að þjóðin fái réttláta hlutdeild í þeim hagnaði, og auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum að hækka laun og ráða fleira fólk með lækkun tryggingagjalds.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er ekki einhver grunnur í þessum hugmyndum sem við gætum náð saman um? Er ekki mikilvægt fyrir okkur að reyna hér þvert á flokka að leggja grunn að góðri lausn á þeim erfiða vanda sem upp er kominn?