144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

Hvammsvirkjun.

[14:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að beina spurningu til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ekki tengda þeim málaflokkum heldur því máli sem tröllríður umræðu á þinginu í dag, þ.e. rammaáætlun. Það er kannski einum of að segja að hæstv. ráðherra beri ábyrgð á því ástandi sem er hérna í þinginu, en hann er að minnsta kosti flutningsmaður þeirrar tillögu sem er til umfjöllunar þar sem lagt er til að Hvammsvirkjun verði flutt úr biðflokki í nýtingu á grundvelli tillagna frá verkefnisstjórn. Hæstv. ráðherra rökstyður það mjög vel í þingsályktunartillögu sinni og greinargerð með henni hvers vegna hann leggur eingöngu til að þessi umræddi virkjunarkostur verði fluttur til, þ.e. vegna skorts á gögnum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort meginforsendan sem birtist í greinargerð með þingsályktunartillögunni sé ekki enn til staðar, þ.e. að enn sé skortur á nauðsynlegum gögnum.

Mig langar líka að fá almennt mat ráðherrans á þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram af meiri hluta atvinnuveganefndar, hvort þær séu í samræmi við anda laganna um rammaáætlun og hvort það sé æskilegt að þingið geri svo stórháttaðar breytingar á tillögu sem hefur farið í gegnum allt ferlið þannig að þrír virkjunarkostir af fjórum sem um ræðir í tillögunni hafi ekki farið í gegnum jafn veigamikla skoðun og athugun og sá sem hæstv. ráðherra lagði til á haustdögum að yrði fluttur úr biðflokki yfir í nýtingarflokk.