144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

yfirvofandi verkfall í ferðaþjónustu.

[14:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. ráðherra veit sjálfsagt eru yfirvofandi fleiri verkföll og eins og hæstv. ráðherra veit sjálfsagt líka er það ástand þegar farið að hafa neikvæð áhrif á vinnumarkaðinn. Það sem mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra um er hvort eitthvað hafi verið rætt í ríkisstjórn eða eitthvað gert til þess að bregðast við því að þessi mikilvægasta atvinnugrein landsins, eða í það minnsta ein af þeim allra mikilvægustu, verði fyrir sem minnstum skaða vegna yfirvofandi verkfalla.

Eins og hæstv. ráðherra veit sjálfsagt eru málavextir þeir að það þarf ekki meira en nokkurt umtal um komandi verkföll til að það hafi áhrif á ákvörðun erlendra ferðamanna um hvaða áfangastað þeir velja sér. Fólk sér ekki fyrir sér í fríinu að fara að hanga lengi á flugvöllum og hanga lengi neins staðar og eiga í vandræðum með að gera einföldustu hluti vegna verkfalla. Það kemur hingað til þess að fara í frí, ekki til þess að vinna hér með okkur gegn verkföllum eða að kjarabótum eða neinu slíku, þannig að það hefur mjög neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan er nýr iðnaður sem þolir ekki endilega mörg áföll. Mörg lítil fyrirtæki þola ekki mörg áföll. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til þess í fyrsta lagi að hið háa Alþingi taki sig til og ræði málin með það að markmiði að takmarka eftir fremstu getu þann skaða sem yfirstandandi verkföll og komandi verkföll munu hafa á iðnaðinn. En ég velti því líka fyrir mér hvort hæstv. ríkisstjórn sé að gera eitthvað í málaflokknum og sé á einhvern hátt búin undir það að þessi mikilvægi iðnaður verði fyrir teljandi skaða vegna verkfalla sem verður vonandi sem minnstur í nánustu framtíð.