144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

yfirvofandi verkfall í ferðaþjónustu.

[14:23]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Stjórnvöld hafa sýnt ferðaþjónustunni og markaðssetningu Íslands stuðning á ýmsan hátt og munu gera það áfram og verði þörf á einhverju sérstöku átaki í þeim efnum verða stjórnvöld eflaust enn á ný reiðubúin til þess að taka þátt í því. Mikilvægast er þó að ferðaþjónustufyrirtæki fái þrifist, að við búum þeim það umhverfi hér að þau geti þrifist og geti greitt almennileg laun. Það mikilvægasta í þessu er því að þegar niðurstaða næst í kjarasamningum verði hún til þess fallin annars vegar að gera fyrirtækjunum kleift að starfa hér áfram með þokkalegum árangri og hins vegar að greiða sæmileg laun. Þó að ferðamenn hafi ekki áhyggjur af verðbólgu að mati hv. þingmanns þá tengist verðbólga jú gengi, eins og hann kom aðeins inn á, en við getum ekki litið fyrst og fremst til þess að ferðamenn hafi áhyggjur af verðbólgu eða ekki. Við hljótum að líta til þess að hér sé hægt að búa fólki þau kjör að það geti starfað (Forseti hringir.) í ferðaþjónustu og byggt hana upp til framtíðar.