144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil mótmæla því að enn og aftur séum við með rammaáætlun á dagskrá og einnig þeim fréttum af hv. atvinnuveganefnd sem ég heyrði í hádegisfréttunum. Þar segir hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður nefndarinnar, að það sé svo mikilvægt að virkja í Þjórsá meðal annars og Skrokköldu af því að flytja þurfi orku til að drífa áfram verksmiðjur í Helguvík og á Grundartanga. Mér þætti gaman að vita hvort hv. stjórnarþingmenn hafi farið yfir það með sveitarfélögum á Suðurlandi. Sveitarfélögin á Suðurlandi hafa lagt á það áherslu að ef virkjað verður í Þjórsá verði orkan nýtt í héraði.

Ég vil spyrja forseta: Hefur hann grennslast fyrir um allan málatilbúnað hvað þetta varðar og hvaða deilur skapast ekki bara hér í þessum sal heldur einnig um allt land verði það að veruleika sem hér er lagt til?