144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að spyrja hvort þingflokksfundum stjórnarflokkanna sé ekki örugglega lokið vegna þess að hér vantar þingmenn þeirra fyrir utan hæstv. forseta og hv. þm. Vilhjálm Bjarnason sem hér er. Ég held að það skipti máli að menn komi hingað og eigi samtal um þetta því á meðan kemur hv. þm. Jón Gunnarsson í hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum í dag og sendir okkur slík skeyti að það er algerlega ljóst að hann hefur engan áhuga á því að reyna að eiga við okkur samtal um leiðina áfram í þessum málum, engan. Það eru skilaboðin sem við fáum hingað. Ég vil fá það staðfest frá öðrum þingmönnum stjórnarflokkanna að svo sé og þá er það bara ákvörðun sem við horfumst í augu við og tökum þá málin áfram út frá því.

Á sama tíma er að koma í ljós að eftir níu mánuði muni faghópar skila niðurstöðu um tæplega 30 svæði, virkjunarkosti á landinu, og í framhaldi af því verði unnið úr því og skilað inn til þingsins. (Forseti hringir.) Í ljósi þeirra staðreynda skil ég ekki þetta offors og skil ekki þær skeytasendingar sem við fáum í fjölmiðlum frá formanni nefndarinnar.