144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er alveg kristalsklárt eftir skýrslugjöf sem við höfum fengið af fundi atvinnuveganefndar í morgun að það liggur algerlega fyrir hvað ber að gera og þarf að gera og hvað er það eina sem er boðlegt að gera og það er að láta verkefnisstjórn fá vinnufrið og búa vel að starfi hennar hvað varðar til dæmis fjármögnun til faghópa og öllu starfinu. Þá liggur fyrir að við getum fengið lögformlega röðun út úr þessu ferli 3. áfanga rammaáætlunar innan eins og hálfs árs eða minna. Hvað er þá í húfi þegar jafnframt liggur fyrir að það eru engir samningar eða skuldbindingar um raforkuafhendingu að stranda í núverandi ástandi, engir, og virkjunaraðilar hafa nóg fyrir framan sig næstu missirin? Landsvirkjun er að hefja byggingu Þeistareykjavirkjunar og ef hún ræðst í viðbót við, hvort sem heldur væri stækkun Búrfells eða Hvammsvirkjun, er það þá ekki nóg handa henni næstu 3–4 árin? Jú, ætli það ekki. Þetta er heimatilbúinn vandi. (Forseti hringir.) Það er heimatilbúin lygi að landið sé að verða rafmagnslaust og það er mál til komið að forsvarsmenn meiri hluta atvinnuveganefndar fari að viðurkenna það. Það eru þeir sem ættu að líta í eigin barm í staðinn fyrir að henda endalaust fleiri og fleiri sprengjum inn í þessa umræðu.